Inga segir að lagabreytingin sé hluti af aðför stjórnvalda að fólki sem er á framfæri tryggingastofnunnar. Eldri borgarar og öryrkjar séu margir hverjir ekki mjög tæknivæddir, og kunni ekki á síður eins og island.is, og hafi ekki bolmagn til að sækja um svona hluti. „Það er allt gert til að gera þau ósjálfbjarga,“ segir Inga.
Megum ekki gleyma okkur í tæknivæðingunni
„Við erum að gleyma okkur í því að tæknivæðast. Við verðum að muna það, að það eru 60 þúsund manns á landinu sem eru ekki eins tæknivædd og við flest,“ segir Inga.
Hún tekur móður sína sem dæmi, en hún segir að hún þurfi að sækja um alls konar þjónustu eins og ferðaþjónustu eldra fólks, í gegnum síður eins og island.is. Þetta geti hún ekki gert sjálf. „Ef ég nefni það að hún geti fengið svona auðkennislykil, fær hún kvíðakast og vill ekki tala um það,“ segir Inga um móður sína, en að hún sé algjörlega sjálfbjarga að öðru leyti.
Sjálfstæðismenn sjái svindlara í hverju horni
Inga segir að markmið lagabreytingarinnar sé að koma í veg fyrir að fólk misnoti kerfið. „Ástæðan er sú að þau halda að einhverjir kampavínskóngar standi með staupið á golfvelli og séu að svindla á kerfinu, með tvöfaldan persónuafslátt,“ segir Inga.

Þetta eigi þó alls ekki við um íslenska eldri borgara og öryrkja sem búi erlendis. Þau séu fólk sem jafnan eru að flýja fátækt að heiman, og vilji búa þar sem þau geta lifað á lífeyrinum. Þau komi svo oft heim á sumrin.„Þarna voru aðilar frá Sjálfstæðisflokknum hlaupandi á milli, að telja okkar fólki trú um það að fullt af fólki sé að svindla á kerfinu. Þau hafa alltaf haft þá tilfinningu um okkur öryrkja, það eru allir að svindla, þeir sjá alltaf svindl í hverju horni,“ segir Inga.
Á von á skýrslu 1. nóvember
Inga segir að hún eigi von á skýrslu frá fjármálaráðherra 1. nóvember um það hvaða afleiðingar þessi breyting komi til með að hafa. Fjármálaráðherra hafi lofað því að lögin tækju ekki gildi, ef í ljós kemur að löggjöfin kæmi eins illa út og Inga hefur haldið fram.
„En ég veit náttúrulega hvernig sú úttekt verður gerð, það er engin óhlutdrægni í einu eða neinu, úttektin verður bara í takt við það sem þau vilja meina,“ segir Inga.