Strákarnir hans Rangnicks féllu úr leik í sextán liða úrslitum á EM eftir 1-2 tap fyrir Tyrklandi í Leipzig í gær.
Margir hrifust af austurríska liðinu á EM en það þótti spila skemmtilegan fótbolta og vann dauðariðilinn sem í voru, auk þeirra, Holland, Frakkland og Pólland.
Leikur Austurríkis og Tyrklands í gær var hin mesta skemmtun en það sama var ekki hægt að segja um alla leikina í sextán liða úrslitum. Rangnick leiddist allavega meðan hann horfði á þá.
„Ég hef séð aðra leiki þar sem það var jafnvel erfitt að halda sér vakandi. Sú var ekki raunin í okkar leikjum,“ sagði Rangnick eftir tapið fyrir Tyrkjum í gær.
Austurríkismenn voru hársbreidd frá því að knýja fram framlengingu en Mert Günok varði stórkostlega frá Christoph Baumgartner þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
Rangnick gat ekki annað en hrósað Günok eftir leikinn og líkti honum við sjálfan Gordon Banks. Hann vísaði þar í sögulega markvörslu Banks frá Pelé á HM í Mexíkó 1970.
Ekki verður leikið á EM í dag og á morgun en leikirnir í átta liða úrslitum fara fram á föstudag og laugardag.