Ed Sheeran, sem er mikill fótboltaáhugamaður og harður stuðningsmaður Ipswich Town, mætti í bækistöð enska liðsins í Blankenhain í gær.
Sheeran hafði horft á leikinn á móti Slóvökum í Gelsenkirchen en ferðast síðan til Blankenhain daginn eftir.
Enska liðið er með aðstöðu á heilsuhótelinu Weimarer Land en hótelið hefur jafnframt yfir að ráða flottum golfvelli. Það fer því vel um ensku leikmennina og landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate leggur áherslu á afslappað og þægilegt umhverfi í kringum hópinn.
Þjálfarinn tók líka vel í það að tónlistastjarnan myndi skemmta hans mönnum.
Lærisveinar Southgate voru í léttri endurhæfingu fyrr um daginn en fengu síðan tónleika um kvöldið.
Þetta er í annað skiptið sem Sheeran skemmtir ensku landsliðsmönnunum á Evrópumóti en það gerði hann líka á EM 2021. Á HM í Katar var það aftur á móti Robbie Williams sem heimsótti enska liðið.
Ed Sheeran hefur selt yfir 150 milljónir platna og er einn af söluhæstu tónlistarmönnum heims. Hann á mörg af vinsælustu lögum síðasta áratugar og hefur örugglega tekið eitthvað af þeim fyrir ensku landsliðsstrákana.
🎸🏴Ed Sheeran performs private concert for England players after Slovakia win
— The Telegraph (@Telegraph) July 2, 2024
Find out more👇https://t.co/plO1WwTMix pic.twitter.com/C6NYphQCwj