Heimir tók við jamaíska landsliðinu í september 2022. Undir hans stjórn vann liðið bronsverðlaun í Gullbikarnum 2023, komst inn á Copa America 2024 og vann fyrstu tvo leikina í undankeppni HM 2026.
„Hallgrímsson kom til Jamaíka fyrir tveimur árum og hefur hækkað rána í kringum landsliðið ef elju og dugnaði. Jamaíska knattspyrnusambandið og Jamaíka í heild hefur notið góðs af hans störfum. Við þökkum honum fyrir hans framlag og óskum honum alls hins besta í framtíðinni,“ segir í tilkynningu knattspyrnusambandsins.
Jamaica Observer greinir frá því að Heimir hafi tilkynnt afsögnina í gær, áður en Jamaíka spilaði síðasta leik sinn á Copa America gegn Venesúela og tapaði 3-0. Ljóst var fyrir leik að Jamaíka héldi ekki áfram eftir riðlakeppnina.
Jamaíska knattspyrnusambandið mun þegar í stað hefja leit að nýjum þjálfara. Næstu leikir Jamaíku eru í CONCACAF Þjóðadeildinni í september og október, önnur umferð í undankeppni HM verður svo leikin í júní á næsta ári.