Þetta kemur fram í Facebook færslu frá Singapore Airlines, þar sem félagið biður farþega afsökunar á atvikinu. Breti á áttræðisaldri lét lífið í ókyrrðinni og tugir slösuðust.
Í færslunni segir að þeim sem hlutu minni háttar áverka í ókyrrðinni verða boðnir tíu þúsund Bandaríkjadalir í bætur. Þeim sem hlutu alvarlegri áverka verði hins vegar boðið að semja um bætur þegar þau eru tilbúin til þess.
Félagið býður þeim sem lögðust inn á spítala vegna áverka og þurfa á fjárhagslegum stuðningi að halda við lækniskostnað 25 þúsund dala fyrirframgreiðslu til að mæta þörfum þeirra. Þá fá allir farþegar fargjaldið endurgreitt, hvort sem þeir slösuðust í ókyrrðinni eða ekki.
Aron Matthíasson var einn farþegar flugvélinni. Hann var á leið til Nýja-Sjálands á vegum Marel þegar atvikið varð. Aron þríbrotnaði á einum hálshryggjarlið auk þess sem þrjú rifbein brotnuðu í ókyrrðinni. Hann lýsti tildrögum atviksins í samtali við fréttastofu á dögunum, en þá var hann nýútskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa dvalið þar í viku.