Hægriflokkarnir franska Þjóðfylkingin, sem leiddur er af hinni umdeildu Marine Le Pen, og Reconquête, flokkur sjónvarpsmannsins fyrrverandi Eric Zemmour, mælast með samanlagt fjörutíu prósenta fylgi í útgönguspám Evrópukosninganna í Frakklandi.
Í kosningavakt breska ríkisútvarpsins segir að Macron hafi boðað til kosninga vegna þessa. Kosningarnar verði haldnar 30. júní og 7. júlí næstkomandi.
Hægriflokkum gengur vel víðar
Einni stærstu lýðræðislegu aðgerð heims lýkur í dag þar sem kosið er til Evrópuþings í 21 af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Um 370 milljónir manna eru á kjörskrá og keppt er um 720 sæti.
Kjósendur í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Póllandi, svo nokkur dæmi séu nefnd, kjósa í dag, á síðasta degi kosninga, sem hófust í Hollandi á fimmtudaginn.
Miðað við útgönguspár hefur flokkum lengst til hægri á hinum pólitíska ás vaxið ásmegin víða í álfunni.
Tilbúin að taka við völdum, skrúfa fyrir flóttamannastrauminn og setja kaupmátt í forgang
Marine Le Pen hefur fagnað ákvörðun Macrons um að boða til kosninga. Hún segir niðurstöður sögulegra kosninga sýna fram á að þegar fólkið kjósi, sigri fólkið.
„Við erum reiðubúin til að taka við völdum ef franska þjóðin veitir okkur umboð í komandi kosningum. Við erum reiðubúin að beita valdinu, að binda enda á fjöldaflutning til Frakklands, setja kaupmátt í fyrsta sæti, að gera Frakklandi kleift að lifa á ný,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir henni.
Fréttin hefur verið uppfærð.