Innlent

Engir ytri á­verkar sem skýra andlátin

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Sambýlisfólkið fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík í síðustu viku. 
Sambýlisfólkið fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík í síðustu viku.  Vísir/Arnar

Engir ytri áverkar voru á líkum sambýlisfólks á sjötugsaldri sem fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík í síðustu viku. Dánarorsök er ekki ljós og nákvæm dánarstund liggur ekki fyrir, en ekkert bendir til þess að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti. 

Bráðabirgðaniðurstöður réttarkrufningar á hinum látnu liggja fyrir, en í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að dánarorsök sé ekki ljós en endanlegrar niðurstöðu sé að vænta á næstu vikum.

Í samtali við fréttastofu segir Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum að nánari upplýsingar verði ekki veittar að svo stöddu.

Fólkið fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík eftir að nágranni varð þess var að ekki væri allt með felldu og kallaði til lögreglu. Fólkið hafði verið látið í einhvern tíma áður en andlátin uppgötvuðust. Óskað var eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu auk réttarmeinafræðings til að taka þátt í vettvangsrannsókn lögreglu.

Í tilkynningunni kemur fram að líkt og áður hafi verið gefið út sé ekkert sem bendi til þess að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×