Í greininni ítrekar Þórdís Kolbrún að stuðningur Íslands við varnir Úkraínu gegn Rússum sé ekki andstaða við frið, heldur séu varnir til þess að verja friðinn.
Greinin er skýrt svar við þeirri umræðu sem skapaðist í forsetakosningakappræðum, þar sem Halla Tómasdóttir, verðandi forseti, lýsti einna mestum efasemdum um að styðja Úkraínu hernaðarlega. Flestir frambjóðendurnir áréttuðu mikilvægi þess að styðja Úkraínumenn í baráttu sinni gegn Rússum en Halla sagði hins vegar að sér fyndist ekki sjálfsagt að kaupa vopn fyrir Úkraínumenn „án samtals“ og að það samræmdist ekki gildum Íslands.
Þórdís Kolbrún segir að ef Ísland ætti vopn, þá væru þau send til Úkraínu.
„En þegar kemur að fjármagni þá viljum við nýta það til brýnustu þarfa Úkraínu, samkvæmt þeirra eigin mati,“ segir Þórdís Kolbrún í greininni. Það skipti máli að sýna bandamönnum Íslands í Nató að Íslendingar séu verðugir bandamenn.
„Höfum líka í huga að öll helstu vina- og bandalagsríki ganga mun lengra í stuðningi við Úkraínu og ekkert þessara ríkja lætur beinar hótanir og ógnandi talsmáta Rússa slá sig út af laginu.
Ólíkt vina- og bandalagsríkjum okkar sem hafa frá fyrstu dögum getað sent birgðir af eigin varnarbúnaði hefur Ísland ekki verið fært um slíkt framlag.“
Tilefni umræðu þessarar um fjárstuðning við Úkraínu er fundur Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, með Volodýmýr Selenskíj, forseta Úkraínu, í Stokkhólmi í síðustu viku, þar sem Bjarni lofaði fjórum milljörðum króna árlega frá Íslandi næstu árin.
„Ísland er friðsælt. Fjarlægð frá heimsins vígaslóð hefur verið okkar besta trygging fyrir þessari friðsæld gegnum aldirnar. Nútíminn virðir slíkar fjarlægðir engu. Nú felst trygging öryggis okkar í samvinnu við þau ríki sem standa okkur næst. Ef við ætlum að þiggja þá vernd þá þurfum við að geta staðið kinnroðalaust með bandalagsríkjum okkar og reyna ekki að sleppa ódýrt frá þeim sameiginlegu verkefnum til að verja frið okkar og frelsi,“ segir Þórdís Kolbrún að lokum.