Um flug geirfuglsins Sigríður Hagalín Björnsdóttir skrifar 4. júní 2024 08:00 Á þessum degi, 4. júní, fyrir réttum 180 árum, sigldi hópur manna frá Höfnum í þeim göfuga tilgangi að varðveita íslenska geirfuglinn. Þeir klifu fertugan hamar Eldeyjar, fundu þar tvo geirfugla á klettasnös og sneru þá úr hálsliðnum, fluttu síðan hræin með sér til lands og komu þeim í hendur Siemsens kaupmanns í Reykjavík. Hann greiddi þeim 300 krónur fyrir hvort stykki, og seldi síðan áfram til erlendra vísindamanna. Tveir síðustu geirfuglarnir sem vitað er með vissu að hafi verið til í veröldinni voru síðan stoppaðir upp og varðveittir á söfnum. Hvaða lærdóm má draga af þessum atburði? Eflaust eitthvað um heimsku og skammsýni allra þeirra sem komu að máli, en ég held að enginn þeirra hafi verið knúinn áfram af illum hvötum. Þetta voru sennilega allt góðir menn og velmeinandi, og ég dreg fyrst og fremst þessa ályktun af atburðinum: of einstrengingsleg varðveisla tegundanna getur hreinlega útrýmt þeim. Mér dettur ekki í hug að líkja íslenskri tungu við íslenska geirfuglinn. Hún er hvorki stór né klunnaleg, og þaðan af síður ófleyg eða ósjálfbjarga. En ég óttast að sumir einlægir velunnarar hennar skapi henni sömu örlög og geirfuglinum; að varðveisla hennar ríði henni á endanum að fullu. Íslensk tunga er, enn sem komið er, sprellifandi. Hún er í fantaformi, í daglegri notkun í alls konar munnum og kollum, ungum og gömlum, lærðum og ólærðum, innfæddum og aðfluttum, á Íslandi og í útlöndum. Sjálfsagt hafa aldrei eins margir, á einum tíma, talað, lesið og skrifað íslensku og í dag. Eins og öll heilbrigð og lifandi fyrirbæri í veröldinni tekur hún stöðugum breytingum, lagar sig að hugsun og tilfinningu hvers sem notar hana. Hún er máttugt og margbrotið verkfæri, það er gaman að nota hana. Undanfarið hafa margir góðir, velmeinandi menn stigið fram íslenskunni til varnar. Þeir halda því fram að sjálft Ríkisútvarpið hafi bannað viðteknar málvenjur og málfræðireglur, og ætli að venja þjóðina á nýstárlegt og kynhlutlaust mál, með góðu eða illu. Netheimar loga, formaður Miðflokksins skrifar ógnarlanga grein um málið í Morgunblaðið og menningarmálaráðherra hefur kallað útvarpsstjóra á teppið. Engu máli virðist skipta að Ríkisútvarpið beri af sér sakir og bendi á að þar innandyra sé fólk bara að reyna að vanda sig, því sé frjálst að nota það orðalag sem því þykir eðlilegt, svo lengi sem það teljist ekki beinlínis rangt. Og hér er rétt að árétta að íslensk tunga varð ekki til í kringum, eða út af reglum um rétt málfar og stafsetningu. Hún var ein ólgandi, skapandi, lífræn súpa um aldir áður en fyrsti málfræðingurinn settist niður og skrifaði ritgerð sína, og mörgum öldum áður en þeir góðu menn Björn Guðfinnsson og Árni Bö reyndu að koma á hana böndum, staðla hana og sjá til þess að allir – allir – notuðu nákvæmlega sama ritháttinn og málfræðireglurnar. Enginn þeirra Snorra Sturlusonar, Hallgríms Péturssonar, Jónasar Hallgrímssonar eða Halldórs Laxness hefði staðist þeirra ströngu kröfur. Þeir þrír fyrrnefndu hefðu sennilega orðið steinhissa að sjá ljóð sín og texta öll útkrotuð í leiðréttingum, sá síðastnefndi kærði sig kollóttan. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að íslenskunni stafar engin hætta af því að sum okkar tali stundum um fólk frekar en menn, þau frekar en þá, jafnvel þótt það heyrist stundum í Ríkisútvarpinu. (Ég vinn þar og hef aldrei orðið vör við gagnrýni eða þrýsting vegna minnar íhaldssömu máltilfinningar.) Ég held að í stóra samhenginu skipti litlu máli hvort einhver segir mér langar eða það var sagt mér. Meira að segja viðtengingarhátturinn, í allri sinni hikandi fegurð, er engin sérstakur mælikvarði á lífslíkur íslenskunnar. Allar nágrannaþjóðir okkar losuðu sig við hann fyrir löngu, og þó lifðu enskan, danskan, norskan og sænskan góðu lífi síðast þegar fréttist til þeirra. En íslensk tunga er vissulega í útrýmingarhættu. Sú ógn stafar ekki af blæbrigðum hennar og smekksatriðum, heldur af stöðugum ágangi nýrra miðla, sem íslenskan hefur ekki fengið tíma, ráðrúm eða fjármagn til að aðlagast. Á okkur bylur endalaus hríð afþreyingar, menningarefnis, upplýsinga og samskipta á ensku, sem beina athygli okkar, tíma og fjármagni frá efni á íslensku. Framlög til rannsókna og kennslu á íslenskri tungu, bókmenntum og öðrum hugvísindum við Háskóla Íslands hafa verið skorin niður við trog, almenningsbókasöfnum er lokað í sparnaðarskyni á sumrin, frjálsir fjölmiðlar rorra í andarslitrunum og fyrirtæki eins og Storytel hefur fengið að stunda rányrkju í íslenska bókmenntahagkerfinu, svo höfundar og þýðendur eiga sífellt erfiðara með að lifa af verkum sínum. Um leið notum við hvert tækifæri til að berja hvert á öðru fyrir að tala eða skrifa vitlaust mál, stafsetja vitlaust, beygja vitlaust, nota hikorð eða slettur. Er nokkuð skrítið að mörgum finnist bara best að nota ensku? Ég held að ef einhver hefði haft rænu á því á sínum tíma að leggja fjármagn, alúð og vinnu í að hjálpa geirfuglinum að lifa, dafna og fjölga sér í stað þess að varðveita hann, þá væri hann mögulega enn til á jörðinni. Hver veit, kannski hefði hann þróast og lært að fljúga? Mig langar til að stinga þeirri hugmynd að þeim góðu, velmeinandi mönnum sem ganga harðast fram við að vernda íslenska tungu, að þeir eyði ekki verðmætri orku og púðri í að reyna að koma í veg fyrir að hún lagi sig að samtíma sínum. Það er bæði tilgangslaust og skaðlegt; tungan breytist og þróast áfram þótt starfsfólki Ríkisútvarpsins verði bannað að meðtaka þær breytingar og bera þær áfram í textum sínum. Ef okkur er raunverulega annt um framtíð íslenskrar tungu, þá þurfum við að beina orku okkar og athygli að því að rækta hana. Við þurfum meira fjármagn, alúð og vinnu í íslenskukennslu á öllum skólastigum, bæði fyrir innfædda og aðflutta; okkur vantar fleiri og betri þýðingar; við þurfum að gera gangskör að textun og talsetningu; okkur vantar fleiri og sterkari innlenda fjölmiðla og bókaútgáfur; við þurfum að efla bókasöfnin okkar, ekki loka þeim; við verðum að gera fleira fólki kleift að vinna við að skrifa, tala og hugsa á íslensku. Það kann að vera dýrara að efla íslenska tungu en að varðveita hana sem safngrip, en það dregur úr líkunum á því að henni verði útrýmt. Ég legg til að við leyfum íslenskunni að fljúga í stað þess að stoppa hana upp. Höfundur er atvinnumaður í íslenskri tungu og áhugamaður um fugla, og situr í stjórn Rithöfundasambands Íslands. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fuglar Íslensk tunga Ríkisútvarpið Fjölmiðlar Mest lesið Hvers á Öskjuhlíðin að gjalda? Eyþór Máni Steinarsson Skoðun Stækkum Sjálfstæðisflokkinn Guðrún Hafsteinsdóttir Skoðun Trú- og lífsskoðunarfélög í landi sammannlegs stjórnskipulags – er samt hætta á óeiningu? Svanur Sigurbjörnsson Skoðun Mýtan um óumflýjanlegan rússneskan sigur Erlingur Erlingsson Skoðun Opið bréf til Einars Þorsteinssonar og Hildar Björnsdóttur - Hafið þið enga sómakennd? Linda Ósk Sigurðardóttir Skoðun Síðasti naglinn í líkkistuna? Ragnheiður Stephensen Skoðun Karlveldið hefur enn ansi mörg andlit Matthildur Björnsdóttir Skoðun Stjórnarskráin Jörgen Ingimar Hansson Skoðun „Þetta er atriðið þar sem þið takið til fótanna…” Marta Wieczorek Skoðun Opið bréf til Jóns Björns Hákonarsonar Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir,Guðrún Ásta Friðbertsdóttir,Karen Ragnarsdóttir,Lísa Lotta Björnsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Stækkum Sjálfstæðisflokkinn Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar Skoðun Trú- og lífsskoðunarfélög í landi sammannlegs stjórnskipulags – er samt hætta á óeiningu? Svanur Sigurbjörnsson skrifar Skoðun Hvers á Öskjuhlíðin að gjalda? Eyþór Máni Steinarsson skrifar Skoðun Karlveldið hefur enn ansi mörg andlit Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Stjórnarskráin Jörgen Ingimar Hansson skrifar Skoðun „Þetta er atriðið þar sem þið takið til fótanna…” Marta Wieczorek skrifar Skoðun Barátta hafnarverkamanna: Leiðin að viðurkenningu sem samningsaðili Sverrir Fannberg Júlíusson skrifar Skoðun Börn í vanda Ebba Margrét Magnúsdóttir skrifar Skoðun Opið bréf til Jóns Björns Hákonarsonar Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir,Guðrún Ásta Friðbertsdóttir,Karen Ragnarsdóttir,Lísa Lotta Björnsdóttir skrifar Skoðun Mýtan um óumflýjanlegan rússneskan sigur Erlingur Erlingsson skrifar Skoðun Hinir mannlegu englar Landspítalans Sveinn Hjörtur Guðfinnsson skrifar Skoðun Magnús Karl verður rektor fyrir okkur öll Guðjón Reykdal Óskarsson skrifar Skoðun Leiðtoga- og stjórnendavandi: Af hverju meðalmennska í stjórnun skaðar skipulagsheildir og hvernig á að bæta úr? Berglind Björk Hreinsdóttir skrifar Skoðun Stöndum vörð um akademískt frelsi Björn Þorsteinsson skrifar Skoðun Samræmd próf jafna stöðuna Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun VR og við sem erum miðaldra Halla Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Áslaug Arna - minn formaður Katrín Atladóttir skrifar Skoðun Mannauður er lykilfjárfesting sveitarfélaga Álfhildur Leifsdóttir skrifar Skoðun Vandi Háskóla Íslands og lausnir – II – ákvörðun launa Pétur Henry Petersen skrifar Skoðun Djarfar áherslur – sterkara VR Þorsteinn Skúli Sveinsson skrifar Skoðun Við höfum tækifæri, sjálfstæðismenn! Kristín Linda Jónsdóttir skrifar Skoðun Gervigreind í læknisfræði: Nýjustu tækniframfarirnar sem gætu bjargað mannslífum Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Síðasti naglinn í líkkistuna? Ragnheiður Stephensen skrifar Skoðun Af töppum Einar Bárðarson skrifar Skoðun Plasttappamálið og skrækjandi þingmenn Birgir Dýrfjörð skrifar Skoðun Áfastur plasttappi lýðræðisins? Ingunn Björnsdóttir skrifar Skoðun Stétt með stétt? Helgi Áss Grétarsson skrifar Skoðun Áfram kennarar! Kristbjörg Þórisdóttir,Bragi Reynir Sæmundsson skrifar Skoðun Landshornalýðurinn á Hálsunum Hákon Gunnarsson skrifar Skoðun Minni kvenna - lofræða gervigreindar til hinnar íslensku konu Steinar Birgisson skrifar Sjá meira
Á þessum degi, 4. júní, fyrir réttum 180 árum, sigldi hópur manna frá Höfnum í þeim göfuga tilgangi að varðveita íslenska geirfuglinn. Þeir klifu fertugan hamar Eldeyjar, fundu þar tvo geirfugla á klettasnös og sneru þá úr hálsliðnum, fluttu síðan hræin með sér til lands og komu þeim í hendur Siemsens kaupmanns í Reykjavík. Hann greiddi þeim 300 krónur fyrir hvort stykki, og seldi síðan áfram til erlendra vísindamanna. Tveir síðustu geirfuglarnir sem vitað er með vissu að hafi verið til í veröldinni voru síðan stoppaðir upp og varðveittir á söfnum. Hvaða lærdóm má draga af þessum atburði? Eflaust eitthvað um heimsku og skammsýni allra þeirra sem komu að máli, en ég held að enginn þeirra hafi verið knúinn áfram af illum hvötum. Þetta voru sennilega allt góðir menn og velmeinandi, og ég dreg fyrst og fremst þessa ályktun af atburðinum: of einstrengingsleg varðveisla tegundanna getur hreinlega útrýmt þeim. Mér dettur ekki í hug að líkja íslenskri tungu við íslenska geirfuglinn. Hún er hvorki stór né klunnaleg, og þaðan af síður ófleyg eða ósjálfbjarga. En ég óttast að sumir einlægir velunnarar hennar skapi henni sömu örlög og geirfuglinum; að varðveisla hennar ríði henni á endanum að fullu. Íslensk tunga er, enn sem komið er, sprellifandi. Hún er í fantaformi, í daglegri notkun í alls konar munnum og kollum, ungum og gömlum, lærðum og ólærðum, innfæddum og aðfluttum, á Íslandi og í útlöndum. Sjálfsagt hafa aldrei eins margir, á einum tíma, talað, lesið og skrifað íslensku og í dag. Eins og öll heilbrigð og lifandi fyrirbæri í veröldinni tekur hún stöðugum breytingum, lagar sig að hugsun og tilfinningu hvers sem notar hana. Hún er máttugt og margbrotið verkfæri, það er gaman að nota hana. Undanfarið hafa margir góðir, velmeinandi menn stigið fram íslenskunni til varnar. Þeir halda því fram að sjálft Ríkisútvarpið hafi bannað viðteknar málvenjur og málfræðireglur, og ætli að venja þjóðina á nýstárlegt og kynhlutlaust mál, með góðu eða illu. Netheimar loga, formaður Miðflokksins skrifar ógnarlanga grein um málið í Morgunblaðið og menningarmálaráðherra hefur kallað útvarpsstjóra á teppið. Engu máli virðist skipta að Ríkisútvarpið beri af sér sakir og bendi á að þar innandyra sé fólk bara að reyna að vanda sig, því sé frjálst að nota það orðalag sem því þykir eðlilegt, svo lengi sem það teljist ekki beinlínis rangt. Og hér er rétt að árétta að íslensk tunga varð ekki til í kringum, eða út af reglum um rétt málfar og stafsetningu. Hún var ein ólgandi, skapandi, lífræn súpa um aldir áður en fyrsti málfræðingurinn settist niður og skrifaði ritgerð sína, og mörgum öldum áður en þeir góðu menn Björn Guðfinnsson og Árni Bö reyndu að koma á hana böndum, staðla hana og sjá til þess að allir – allir – notuðu nákvæmlega sama ritháttinn og málfræðireglurnar. Enginn þeirra Snorra Sturlusonar, Hallgríms Péturssonar, Jónasar Hallgrímssonar eða Halldórs Laxness hefði staðist þeirra ströngu kröfur. Þeir þrír fyrrnefndu hefðu sennilega orðið steinhissa að sjá ljóð sín og texta öll útkrotuð í leiðréttingum, sá síðastnefndi kærði sig kollóttan. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að íslenskunni stafar engin hætta af því að sum okkar tali stundum um fólk frekar en menn, þau frekar en þá, jafnvel þótt það heyrist stundum í Ríkisútvarpinu. (Ég vinn þar og hef aldrei orðið vör við gagnrýni eða þrýsting vegna minnar íhaldssömu máltilfinningar.) Ég held að í stóra samhenginu skipti litlu máli hvort einhver segir mér langar eða það var sagt mér. Meira að segja viðtengingarhátturinn, í allri sinni hikandi fegurð, er engin sérstakur mælikvarði á lífslíkur íslenskunnar. Allar nágrannaþjóðir okkar losuðu sig við hann fyrir löngu, og þó lifðu enskan, danskan, norskan og sænskan góðu lífi síðast þegar fréttist til þeirra. En íslensk tunga er vissulega í útrýmingarhættu. Sú ógn stafar ekki af blæbrigðum hennar og smekksatriðum, heldur af stöðugum ágangi nýrra miðla, sem íslenskan hefur ekki fengið tíma, ráðrúm eða fjármagn til að aðlagast. Á okkur bylur endalaus hríð afþreyingar, menningarefnis, upplýsinga og samskipta á ensku, sem beina athygli okkar, tíma og fjármagni frá efni á íslensku. Framlög til rannsókna og kennslu á íslenskri tungu, bókmenntum og öðrum hugvísindum við Háskóla Íslands hafa verið skorin niður við trog, almenningsbókasöfnum er lokað í sparnaðarskyni á sumrin, frjálsir fjölmiðlar rorra í andarslitrunum og fyrirtæki eins og Storytel hefur fengið að stunda rányrkju í íslenska bókmenntahagkerfinu, svo höfundar og þýðendur eiga sífellt erfiðara með að lifa af verkum sínum. Um leið notum við hvert tækifæri til að berja hvert á öðru fyrir að tala eða skrifa vitlaust mál, stafsetja vitlaust, beygja vitlaust, nota hikorð eða slettur. Er nokkuð skrítið að mörgum finnist bara best að nota ensku? Ég held að ef einhver hefði haft rænu á því á sínum tíma að leggja fjármagn, alúð og vinnu í að hjálpa geirfuglinum að lifa, dafna og fjölga sér í stað þess að varðveita hann, þá væri hann mögulega enn til á jörðinni. Hver veit, kannski hefði hann þróast og lært að fljúga? Mig langar til að stinga þeirri hugmynd að þeim góðu, velmeinandi mönnum sem ganga harðast fram við að vernda íslenska tungu, að þeir eyði ekki verðmætri orku og púðri í að reyna að koma í veg fyrir að hún lagi sig að samtíma sínum. Það er bæði tilgangslaust og skaðlegt; tungan breytist og þróast áfram þótt starfsfólki Ríkisútvarpsins verði bannað að meðtaka þær breytingar og bera þær áfram í textum sínum. Ef okkur er raunverulega annt um framtíð íslenskrar tungu, þá þurfum við að beina orku okkar og athygli að því að rækta hana. Við þurfum meira fjármagn, alúð og vinnu í íslenskukennslu á öllum skólastigum, bæði fyrir innfædda og aðflutta; okkur vantar fleiri og betri þýðingar; við þurfum að gera gangskör að textun og talsetningu; okkur vantar fleiri og sterkari innlenda fjölmiðla og bókaútgáfur; við þurfum að efla bókasöfnin okkar, ekki loka þeim; við verðum að gera fleira fólki kleift að vinna við að skrifa, tala og hugsa á íslensku. Það kann að vera dýrara að efla íslenska tungu en að varðveita hana sem safngrip, en það dregur úr líkunum á því að henni verði útrýmt. Ég legg til að við leyfum íslenskunni að fljúga í stað þess að stoppa hana upp. Höfundur er atvinnumaður í íslenskri tungu og áhugamaður um fugla, og situr í stjórn Rithöfundasambands Íslands.
Trú- og lífsskoðunarfélög í landi sammannlegs stjórnskipulags – er samt hætta á óeiningu? Svanur Sigurbjörnsson Skoðun
Opið bréf til Einars Þorsteinssonar og Hildar Björnsdóttur - Hafið þið enga sómakennd? Linda Ósk Sigurðardóttir Skoðun
Opið bréf til Jóns Björns Hákonarsonar Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir,Guðrún Ásta Friðbertsdóttir,Karen Ragnarsdóttir,Lísa Lotta Björnsdóttir Skoðun
Skoðun Trú- og lífsskoðunarfélög í landi sammannlegs stjórnskipulags – er samt hætta á óeiningu? Svanur Sigurbjörnsson skrifar
Skoðun Barátta hafnarverkamanna: Leiðin að viðurkenningu sem samningsaðili Sverrir Fannberg Júlíusson skrifar
Skoðun Opið bréf til Jóns Björns Hákonarsonar Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir,Guðrún Ásta Friðbertsdóttir,Karen Ragnarsdóttir,Lísa Lotta Björnsdóttir skrifar
Skoðun Leiðtoga- og stjórnendavandi: Af hverju meðalmennska í stjórnun skaðar skipulagsheildir og hvernig á að bæta úr? Berglind Björk Hreinsdóttir skrifar
Skoðun Gervigreind í læknisfræði: Nýjustu tækniframfarirnar sem gætu bjargað mannslífum Sigvaldi Einarsson skrifar
Trú- og lífsskoðunarfélög í landi sammannlegs stjórnskipulags – er samt hætta á óeiningu? Svanur Sigurbjörnsson Skoðun
Opið bréf til Einars Þorsteinssonar og Hildar Björnsdóttur - Hafið þið enga sómakennd? Linda Ósk Sigurðardóttir Skoðun
Opið bréf til Jóns Björns Hákonarsonar Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir,Guðrún Ásta Friðbertsdóttir,Karen Ragnarsdóttir,Lísa Lotta Björnsdóttir Skoðun