„Þetta var bara galið,“ segir Inga Heiða Lunddal Gestsdóttir. Hún leggur áherslu á hve almennilegt og kurteist starfsfólk í Lækjarskóla hafi verið en biðin hafi þó reynt á þolinmæðina.
Hún telur biðina líklega mega rekja til þess að í fyrstu kjördeild mæti þeir sem búi í ákveðnum götum en einnig fólk sem tilheyrir hópunum „Erlend búseta“ og „ótilgreint“. Auk þess séu húsin flest blokkir og því margir íbúar á einum fleti.
Eina röðin
„Það var ekki röð neins staðar nema í okkar kjördeild,“ segir Inga Heiða. Hún áætlar að um áttatíu manns hafi verið í röðinni þegar mest var sem mjakaðist áfram. Sumir höfðu alls ekki þolinmæði eða hreinlega tíma í biðina.
„Það var ein sem sagðist ekki ætla að kjósa,“ segir Inga Heiða. Starfsfólk hafi brugðist skynsamlega við, hleypt henni fram fyrir og leyft að kjósa. Aðrir hafi yfirgefið svæðið og sagst ætla að koma aftur síðar. Hvort sú verði raunin þurfi að koma í ljós.
Þótt Inga Heiða fái klukkutímann í röðinni fyrsta laugardaginn í júní aldrei aftur hrósar hún starfsfólki kjörnefndar í hástert. Þau hafi gengið um, leiðbeint fólki úr öðrum kjördeildum sem villtist í röðina löngu og svo leitað uppi eldra fólk og boðið því stóla.
Nýtti atkvæðið vel
„Þetta er allavega búið,“ segir Inga greinilega í góðum gír fyrir kvöldið. Hún hafi nýtt atkvæðið vel og kosið rétt.
„Svo vil ég þakka stelpunni sem tók á móti okkur virkilega vel fyrir. Hún var svo brosmild og kurteis,“ segir Inga. Það hafi komið í veg fyrir að hægt væri að verða pirraður.
Ekki náðist í Gest Svavarsson, formann yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, við vinnslu fréttarinnar.