Hröð þróun á sér nú stað á heildsölumarkaði með raforku á Íslandi. Nú í vor hófu tvær kauphallir með langtímasamninga þar sem sölufyrirtæki geta keypt raforku af framleiðendum. Önnur þeirra er á vegum fyrirtækisins Vonarskarðs ehf. en hitt á vegum Elmu, dótturfélags Landsnets.
Nú segist Elma hafa gengið frá samstarfssamningi við evrópsku raforkukauphöllina Nord Pool um opnun fyrsta skammtíma raforkumarkaðarins á Íslandi. Þar verði boðið upp á uppboðsmarkað með dags fyrirvara en í framhaldinu sé stefnt að því að bæta við viðskiptum innan dags.
Stefnt er að því að markaðurinn fari í loftið í byrjun árs 2025. Á skammtímamarkaðinum segist Elma gegna hlutverki miðlægs mótaðila sem tryggi öryggi og gagnsæi fyrir alla þátttakendur.
Langtímamarkaður Elmu er í samstarfi við króatíska fyrirtækið Cropex Power Exchange. Nord Pool er með höfuðstöðvar í Ósló í Noregi og er í eigu evrópsku kauphallarinnar Euronext og TSO Holding, sem er í eigu dreifiaðila raforku á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.