Það urðu heldur betur sviptingar í deildinni um helgina þegar Orri Steinn Óskarsson hjálpaði FC Kaupmannahöfn að vinna 3-1 útisigur á Bröndby. Sá sigur skilaði meisturunum upp á topp töflunnar með 58 stig á meðan gulklætt lið Bröndby fór alla leið niður í 4. sæti en þó aðeins tveimur stigum á eftir toppliðunum tveimur.
Sverrir Ingi Ingason og félagar unnu einnig sinn leik um helgina og eru jafnir toppliði FCK um þessar mundir á meðan Nordsjælland, sem vann einnig sinn leik um helgina, er líkt og Bröndby með 56 stig.
Jonas Hebo Goldmann, sparkspekingur TV 2 Sports í Danmörku, segir toppbaráttuna þar í landi aldrei hafa verið jafn spennandi.
„Það er magnað að sjá að þegar það eru þrjár umferðir eftir geta fjögur lið enn unnið titilinn. Það er enn ruglaðra að þrjú liðanna hafa örlögin í eign höndum.“
Goldmann segir að ríkjandi meistarar í FCK séu líklegastir til að hreppa hnossið eins og staðan er í dag en það á þó margt eftir að gerast. Hér að neðan má sjá hvaða leiki liðin eiga eftir.
- FCK á eftir Midtjylland (heima), AGF (úti) og Nordsjælland (heima).
- Midtjylland á eftir FCK (úti), Nordsjælland (úti) og Silkeborg (heima).
- Bröndby á eftir Nordsjælland (heima), Silkeborg (úti) og AGF (heima).
- Nordsjælland á eftir Bröndby (úti), Midtjylland (heima) og FCK (úti).
Það er ljóst að margt getur breyst frá því nú og þegar flautað verður til leiksloka þann 26. maí þegar lokaumferð deildarinnar fer fram.