Í yfirlýsingu frá ákæruvaldinu í Póllandi segir að maðurinn, sem er kallaður Pawel K, sé sakaður um að hafa haft í hyggju að veita Rússum upplýsingar um flugvallaröryggi. Þá er hann sagður hafa verið handtekinn í Póllandi á miðvikudag.
Upplýsingarnar sem maðurinn hugðist koma til Rússa varða Rzeszów-Jasionka flugvöllinn í suðausturhluta Póllands, nærri landamærunum að Úkraínu, sem þjónar sem miðpunktur flutninga hergagna og annarra aðfanga inn í Úkraínu.
Flugvöllurinn er undir stjórn Bandaríkjahers og þangað koma gjarnan erlendir ráðamenn þegar þeir heimsækja Selenskí. Selenskí er sjálfur tíður gestur vallarins.
Maðurinn á yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi.
Guardian greinir frá þessu en í frétt miðilsins kemur einnig fram að samkvæmt yfirvöldum í Þýskalandi hafi tveir Þjóðverjar af rússneskum uppruna verið handteknir fyrir njósnir en einn þeirra er sagður hafa samþykkt að fremja árásir til að koma í veg fyrir flutning neyðargagna til Úkraínu.
Þeir voru sömuleiðis handteknir á miðvikudag.