Aston Villa gerði sér lítið fyrir og vann 2-0 útisigur á Arsenal í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Sigurinn styrkir stöðu Villa í 4. sætinu á meðan Skytturnar eru núna tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City.
Leikur dagsins var ekki mikið fyrir augað framan af og staðan markalaus í hálfleik. Bæði lið gerðu breytingar í síðari hálfleik en vildu þó ekki taka óþarfa sénsa. Á 84. tókst gestunum þó að galopna vörn heimamanna og lagði Lucas Digne boltann á Leon Bailey sem gat ekki annað en skorað.
Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Ollie Watkins forystuna eftir að Youri Tielemans stakk boltanum inn fyrir vörn heimamanna. Staðan orðin 0-2 og reyndust það lokatölur leiksins.
Two late goals, and two potentially huge moments in the context of this Premier League title race!#ARSAVL pic.twitter.com/pnxmYSPYMW
— Premier League (@premierleague) April 14, 2024
Arsenal er í 2. sæti með 71 stig, tveimur minna en topplið Manchester City sem trónir á toppnum þegar sex umferðir eru eftir. Aston Villa er í 4. sæti með 63 stig.
Í hinum leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni vann Fulham 2-0 útisigur á West Ham United þökk sé tvennu Andreas Pereira. Þá tapaði Liverpool 0-1 á Anfield fyrir Crystal Palace.