Glæpamenn réðust einnig nýverið á tvö stærstu fangelsi landsins og slepptu flestum föngunum út. Þá réðust glæpamenn á forsetahöll Haítí á mánudaginn en lögregluþjónum tókst að stöðva þá.
Ekki tókst hins vegar að stöðva glæpamenn sem settust að í sjúkrahúsi nærri forsetahöllinni en samkvæmt frétt BBC nota þeir sjúkrahúsið nú sem bækistöðvar sínar.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að á milli 8. og 27. mars hafi rúmlega 53 þúsund af um þremur milljónum Port-au-Prince flúið borgina. Varað er við því að landsbyggð Haítí hefur varla burði til að meðhöndla umfangsmikinn fólksflótta frá borginni.
Flestir sem hafa flúið Port-au-Prince hafa farið til suðurhluta landsins, þar sem fólk er enn að reyna að endurbyggja eftir kröftugan jarðskjálfta sem lék ríkið grátt árið 2021, samkvæmt frétt Reuters.
Volker Turk, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því í gær að umfang mannréttindabrota í Haítí væri fordæmalaust í nútímasögu ríkisins. Mannrán og morð væru tíð og kynferðislegt ofbeldi umfangsmikið. Þá hafa átökin komið í veg fyrir að hægt sé að flytja nauðsynjar til íbúa höfuðborgarinnar.
Mikil óreiða
Mikil óreiða hefur ríkt í Haítí frá því Jovenel Moise, forseti, var myrtur árið 2021. Mosie var einkar óvinsæll forseti og var sakaður um einræðistilburði. Degi áður en hann dó skipaði hann sinn sjöunda forsætisráðherra á kjörtímabili sínu.
Ariel Henry, síðasti forsætisráðherrann sem Moise skipaði, hefur sinnt embætti forseta síðan þá. Glæpagengi í landinu, sem eru gífurlega valdamikil og stjórna í raun mest allri höfuðborg Haítí, hafa reynt að myrða hann á undanförnum árum.
Henry hefur ekki viljað halda kosningar, sem hafa ekki verið haldnar á Haítí í nærri því áratug. Hann hafði samið við stjórnarandstæðinga um að stíga til hliðar þann 7. febrúar og halda kosningar en hefur ekki staðið við það.
Henry fór nýverið til Kenía í leit að alþjóðlegri aðstoð vegna öryggisástandsins í Haítí og þá tóku leiðtogar glæpagengja höndum saman gegn yfirvöldum, með því markmiði að koma Henry frá völdum.
Hann samþykkti nýverið að stíga til hliðar og var stjórnarráð myndað í síðustu viku. Það hefur enn ekki gripið til neinna aðgerða.