Rubiales er grunaður um að hafa þegið ólöglegar greiðslur er spænska knattspyrnusambandið gerði himinháann samning um að leikurinn um spænska ofurbikarinn færi fram í Sádi-Arabíu. Hann var því handtekinn á flugvellinum í Madríd við komu sína frá Dóminíska lýðveldinu.
Saksóknarar á Spáni fara fram á að Rubiales verði dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar, en Rubiales neitar öllum ásökunum á hendur sér. Húsleit var gerð á heimili Rubiales í lok síðasta mánaðar þegar hann var staddur í Dóminíska lýðveldinu.
Þá var lögregluleit einnig framkvæmd í húsakynnum spænska knattspyrnusambandsins. Alls var leit gerð í ellefu húsnæðum þann 20. mars síðastliðinn, þeirra á meðal húsakynnum knattspyrnusambandsins í Madríd og heimili Rubiales í Granada.
Þetta er ekki eina málið sem Rubiales á yfir höfði sér, en hann var á dögunum einnig ákærður í tveimur mismunandi liðum tengdum athæfi sínu í kjölfar sigurs spænska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á HM á síðasta ári.
Rubiales smellti óumbeðnum kossi á varir Jenni Hermoso, leikmanns spænska landsliðsins er liðið fagnaði glæstum sigri á HM í fyrra. Mál sem vakti mikla athygli á sínum tíma og í kjölfarið komu upp úr kófinu fleiri ásakanir á hendur Rubiales um óviðeigandi hegðun.
Dómstólar á Spáni haft málið á sínu borði og hefur Rubiales nú verið ákærður í tveimur mismunandi liðum. Annar þeirra snýr að kynferðisbroti og hinn að stjórnandi hegðun hans í kjölfar hins óumbeðna koss.