Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Víkings og Stjörnunnar laugardaginn 6. apríl.
Íþróttadeild spáir Fram 9. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið fari upp um eitt sæti milli ára.
Eftir áratugs útlegð sneri Fram aftur í efstu deild 2022 og gerði þá gott mót. Annars tímabils heilkennið gerði hins vegar vart við sig í fyrra. Frammarar lentu í vandræðum og í lok júlí var Jóni Þóri Sveinssyni sagt upp störfum. Við tók aðstoðarmaður hans, Ragnar Sigurðsson. Honum tókst að bjarga Fram frá falli, en með naumindum þó.

Ragnar fékk ekki að halda áfram með Fram en í hans stað réði félagið Rúnar Kristinsson. Svarthvíta hetjan er því komin í blátt. Þetta er ein stærsta þjálfararáðning í sögu Fram og miklar væntingar eru bundnar við Rúnar í Úlfarsárdalnum.
Fram fékk á sig 63 mörk 2022 og 56 mörk í fyrra. Það var því ljóst að það þyrfti að laga varnarleikinn. Það er því ekki að ástæðulausu að allir fjórir leikmennirnir sem Fram hefur fengið í vetur eru varnarmenn. Kennie Chopart fylgdi Rúnari frá KR, Kyle McLagan kom aftur til Fram eftir tvö ár í Víkingi, Alex Freyr Elísson sneri einnig aftur og hinn ungi og efnilegi Þorri Stefán Þorbjörnsson kom á láni frá Lyngby.

Þá verður spennandi að sjá hvort einn af ungu mönnunum sem Ragnar gaf tækifæri í fyrra, varnarmaðurinn Þengill Orrason, nær að fylgja eftir flottri frammistöðu í úrslitakeppninni þar sem hann skoraði tvö mörk. Einnig verður gaman að fylgjast með miðjumanninum Breka Baldurssyni.
Fram á við eru sömu menn í aðalhlutverki. Tiago Fernandes og Fred Saraiva sjá um að skapa færin og Guðmundur Magnússon og Jannick Pohl um að klára þau. Sá síðastnefndi spilaði lítið í fyrra en hefur verið nokkuð heitur í vetur og skoraði þrjú mörk í Lengjubikarnum. Þar vann Fram aðeins einn leik af fimm.

Ljóst er að Rúnar á talsvert verk fyrir höndum en Fram-liðið ætti að vera nógu sterkt til að sleppa við hörðustu fallbaráttuna. Stærsta spurningin er hvernig gengur að koma jafnvægi á liðið; laga varnarleikinn án þess að það komi niður á sóknarleiknum.

Þá verður Fram að gera betur á útivelli en í fyrra. Frammarar náðu aðeins í fjögur stig og unnu ekki leik utan Úlfarsárdalsins í Bestu deildinni á síðasta tímabili. Ekkert lið var með lélegri útivallarárangur í fyrra en Fram og það þarf að lagast. Ef það gerist, Fram fær aðeins meiri styrkingu og Rúnar finnur jafnvægi í liðinu eru forsendur fyrir ágætis sumri hjá þeim bláu.