Bandaríkin sátu hjá í atkvæðagreiðslunni en þau hafa hingað til beitt neitunarvaldi sínu. Ákallið er það fyrsta sem öryggisráðið sendir frá sér þar sem þess er krafist að hlé verði gert á átökum. Öryggisráðið hefur frá því að átökin stigmögnuðust í október sent frá sér tvær ályktanir um þau en hvorug þeirra hefur fjallað um vopnahlé.
Þó svo að krafan um vopnahlé gildi aðeins í um tvær vikur segir í ályktuninni að vonir standi til þess að hlé á átökum geti leitt til varanlegra vopnahlés.
Í ályktuninni er þess einnig krafist að öllum gíslum sem teknir voru í árás Hamas í Ísrael þann 7. október verði sleppt. Á vef AP segir að sú krafa sé ekki tengd við Ramadan eins og sú um vopnahléið. Þá er þess einnig krafist að mannúðarsamtökum verði hleypt inn á svæðið með hjálpargögn.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir ályktuna skýra.
The Security Council resolution passed today is clear: Immediate ceasefire. Immediate release of all hostages. Humanitarian assistance must reach Gaza and civilians must be protected. We call on all parties to the conflict to heed this clear call from the international community.
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) March 25, 2024
Tillagan var lögð fram af alls tíu ríkjum sem meðlimir eru í öryggisráðinu og naut stuðnings bæði Kínverja og Rússa auk 22 Arabaríkja sem eru meðlimir í Sameinuðu þjóðunum. Alls eiga fimmtán ríki sæti í ráðinu.
Alls hafa um 32 þúsund Palestínubúar verið drepnir í átökunum samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Tveir þriðju þeirra látnu eru konur og börn samkvæmt stofnuninni. Stofnunin gerir ekki greinarmun á almennum borgurum og bardagamönnum. Alþjóðastofnanir hafa varað við því síðustu vikur að mannúðarkrísa sé yfirvofandi á svæðinu og hungursneyð.
Fréttin hefur verið uppfærð.