Þorsteinn er faðir íslenska landsliðsmannsins Jóns Dags Þorsteinssonar sem kom inn á sem varamaður í 4-1 sigurleiknum mikilvæga gegn Ísrael í undanúrslitum umspils um laust sæti á EM gær og hefur sá misskilningur gengið á milli manna eftir leik að Jón Dagur hafi fengið boltann í höndina í seinni hálfleik í aðdraganda þess að Ísraelar fengu sína seinni vítaspyrnu í leiknum.
Staðreyndin er hins vegar sú að Guðmundur Þórarinsson, betur þekktur sem Gummi Tóta, fékk boltann í höndina og því var Þorsteinn gapandi hissa er hann fékk spurningu frá einum blaðamannanna á fundinum í dag. Sá hélt því fram að Jón Dagur, sem stóð við hlið Gumma í varnarvegg íslenska landsliðsins fyrir aukaspyrnu Ísraels, hefði fengið boltann í höndina.
„Brjálaður út í hvern?“ svaraði Þorsteinn blaðamanninum sem svaraði um hæl Jón Dag. „Fyrir hvað?“ svaraði Þorsteinn þá á móti og blaðamaðurinn svaraði þá „fyrir að hafa fengið boltann í höndina.“ Þá hóf Þorsteinn upp raust sína.
„Hann fékk hann náttúrulega ekki í höndina. Þið eruð náttúrulega bara blindir. Ertu ekki að grínast? Nú skal ég bara segja ykkur það að Gummi Tóta fékk boltann í höndina. Það er ekkert flókið. Ég skil ekki hvernig þið fáið þetta út. Ég sá þetta strax. Svo voru þið að skrifa um þetta. Þið eruð allir blindir sem voruð á leiknum.“
Hér fyrir neðan má sjá eldræðu Þorsteins á blaðamannafundinum sem og atvikið úr leiknum. Dæmi nú hver fyrir sig en undirritaður er sammála landsliðsþjálfaranum í þetta skipti. Það er því fært til bókar.