Geir fær greidd laun vegna starfsloka í samræmi við ráðningarsamning. Geir var með 1.750.000 í mánaðarlaun sem bæjarstjóri. Í ráðningarsamningi er kveðið á um sex mánaða uppsagnarfrest á samningi en að þau falli fái hann starf annar staðar. Séu nýju launin lægri falla þau ekki niður heldur skerðist greiðslan.
Í tilkynningu frá bænum kemur fram að forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs hefur verið falið að finna arftaka Geirs. Þar til þeirri leit lýkur mun Helga sinna starfi bæjarstjóra.

Helga Sjálfstæðismenn sátu hjá
Þar kemur einnig fram að tillagan um starfslok hans hafi verið samþykkt með fimm atkvæðum meirihluta Framsóknar og Okkar Hveragerðis en fulltrúar minnihlutans í D-listanum í Hveragerði sátu hjá við afgreiðsluna.
Geir sagði í yfirlýsingu í gær að það væri léttir að losna undan „eitraðri menningu minnihlutans“. Hann hefði viljað ljúka sínu starfi en að það væri ákveðinn léttir að hætta.
„Sem nýr bæjarstjóri hjá nýjum meirihluta í Hveragerði leiddi Geir mörg krefjandi verkefni farsællega. Nú er hins vegar komið að leiðarlokum. Við þökkum honum kærlega fyrir samstarfið og óskum honum alls hins besta í þeim verkefnum sem hann tekur sér næst fyrir hendur,” segir Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar í tilkynningu frá bænum.
Í tilkynningu segir að frá því að hann tók við störfum hafi verið unnið að fjölbreyttum verkefnum eins og stækkun leik- og grunnskóla, ný sorphirða verið innleidd, vinnu við stækkun íþróttahúss hrint úr vör sem og vinnu við hönnun nýs gervigrasvallar. Þá var ráðist í stefnumótun og breytingar á skipuriti bæjarins, fræðslu- og velferðarsviði komið á fót, lækkun leikskólagjalda, frístundastyrkur hækkaður verulega og fráveitumál eru komin á áætlun.
„Það voru forréttindi að fá að starfa sem bæjarstjóri í Hveragerði. Mér var vel tekið af starfsfólki og íbúum. Það er hins vegar svo að stundum gengur fólk ekki í takt og því er farsælast fyrir alla að ég láti nú af störfum. Um það vorum við meirihlutinn í bæjarstjórn sammála. Ég stíg sáttur frá borði og er stoltur af þeim verkefnum sem við komum til leiða. Ég á eftir að sakna samstarfsfólks míns en óska þeim velfarnaðar í komandi verkefnum. Þá vil ég skila þakklæti fyrir samstarfið til meirihlutans í Okkar Hveragerði og Framsókn með velfarnaðaróskum í komandi verkefnum. Það eru spennandi tímar framundan hjá sveitarfélaginu,” segir Geir Sveinsson.