Íslenska liðið spilaði vel stærstan hluta leiksins og gekk á lagið í seinni hálfleik eftir að Roy Revivo fékk að líta beint rautt spjald á 73. mínútu fyrir brot á Arnóri Sigurðssyni. Þrátt fyrir að ísraelska liðið hafi fengið tvær vítaspyrnur í leiknum var sigur íslenska liðsins þó öruggur og Ísland mætir því Úkraínu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM.
Einkunnir Íslands í leiknum:
Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður 7
Gat lítið gert í marki Ísraela. Stóð sína vakt annars vel og átti góða vörslu eftir rétt tæplega klukkutíma leik.
Guðmundur Þórarinsson, vinstri bakvörður 7
Átti fína spretti upp vinstri kantinn og skilaði varnarvinnunni vel. Lítið hægt að setja út á hans frammistöðu.
Daníel Leó Grétarsson, miðvörður 6
Gaf Ísraelum víti á 29. mínútu. Vann sig betur inn í leikinn í seinni hálfleik en hefur klárlega átt betri daga.
Sverrir Ingi Ingason, miðvörður (fyrirliði) 7
Lagði upp annað mark Íslands þegar hann skallaði hornspyrnu Alberts Guðmundssonar aftur fyrir sig. Stóð vaktina í vörninni vel og var oft og tíðum mættur sem fremsti maður til að reyna að vinna skallabolta og valda usla inni á teig.
Guðlaugur Victor Pálsson, hægri bakvörður 8
Traustur og sterkur í bakverðinum eins og svo oft áður. Skilar sér oft vel að hafa stóran og sterkan mann eins og Guðlaug Victor í bakverðinum.
Hákon Arnar Haraldsson, miðjumaður 7
Iðinn og ákveðinn inni á miðsvæðinu. Hljóp úr sér lungun og virðist vera þroskaður leikmaður miðað við aldur.
Arnór Ingvi Traustason, miðjumaður 8
Kom Íslandi í 2-1 með góðu skoti á 42. mínútu. Fór meiddur af velli á 62. mínútu eftir góða frammistöðu.
Arnór Sigurðsson, vinstri kantur 6
Átti fína spretti í leiknum og fiskaði rauða spjaldið á Roy Revivo. Tekinn af velli þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.
Willum Þór Willumsson, hægri kantur 6
Fór lítið fyrir honum og var tekinn af velli í hálfleik.
Orri Steinn Óskarsson, framherji 6
Fékk algjört dauðafæri á 28. mínútu sem hann náði einhvernveginn að setja framhjá eftir skot frá Arnóri Sig.
Albert Guðmundsson, framherji 9 (maður leiksins)
Jafnaði metin í 1-1 með frábæru aukaspyrnumarki á 39. mínútu og skoraði þriðja mark Íslands á 82. mínútu eftir sendingu frá Ísaki Bergmann Jóhannessyni. Fullkomnaði svo þrennuna á 87. mínútu og var í raun allt í öllu í sóknarleik Íslands. Augljóst að liðið hefur saknað hans.
Varamenn:
Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á fyrir Willum Þór Willumsson í hálfleik 6
Gaf vítaspyrnu á 79. mínútu og var heppinn að spyrnan fór framhjá. Átti stóran þátt í fjórða marki Íslands þegar skot hans hrökk út í teiginn og Albert kláraði.
Andri Lucas Gudjohnsen kom inn á fyrir Orra Stein Óskarsson á 62. mínútu 6
Var iðinn í sóknarleiknum og tvisvar nálægt því að koma sér í fín færi.
Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á fyrir Arnór Ingva Traustason á 62. mínútu 6
Fljótur að hugsa í þriðja marki Íslands og tók aukaspyrnuna snemma sem setti Albert í gegn.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 21. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.