Fótbolti

Á­fall fyrir Ís­land: Jóhann fyrir­liði ekki með í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Búdapest í gær og sagðist klár í slaginn gegn Ísrael.
Jóhann Berg Guðmundsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Búdapest í gær og sagðist klár í slaginn gegn Ísrael. Getty/Alex Nicodim

Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með fyrirliðabandið í leiknum mikilvæga við Ísrael í Búdapest í kvöld, í undanúrslitum EM-umspilsins í fótbolta.

UEFA hefur nú birt 23 manna leikmannahópa liðanna og er Jóhann sá sem er utan hóps hjá Íslandi, af þeim 24 leikmönnum sem Åge Hareide valdi síðasta föstudag.

Það er því ljóst að meiðsli Jóhanns hafa reynst alvarlegri en látið var líta út fyrir á blaðamannafundi og í viðtölum í gær.

Jóhann kvaðst í viðtali í gær hafa fengið högg á lærið og af þeim sökum ekki tekið þátt í æfingu Íslands í vikunni. Hann yrði þó klár í slaginn gegn Ísrael. Nú er ljóst að svo verður ekki.

Mikael Egill Ellertsson er skráður með treyju númer sjö í stað Jóhanns í kvöld.


Leikur Ísraels og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport fimmtudaginn 21. mars 2024. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.


Tengdar fréttir

Ísraelskir blaðamenn þjörmuðu að Åge

Ísraelskir blaðamenn spurðu íslenska landsliðsþjálfarann út í stríðið á milli Ísraels og Hamas-samtakanna á blaðamannafundi liðsins fyrir mikilvægan leik á morgun. Fundurinn var fljótur að verða pólítískur og ísraelskir blaðamenn þjörmuðu að Åge Hareide landsliðsþjálfara.

Svona var fundur KSÍ fyrir EM-umspilið

Åge Hareide landsliðsþjálfari og fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Búdapest, daginn fyrir leik Íslands við Ísrael í umspilinu um sæti á EM í fótbolta. Fundurinn var í beinni útsendingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×