Orri hefur þurft að sætta sig við óvenju mikinn tíma utan leikmannahóps undanfarnar vikur en hann var þó mættur aftur í leikmannahóp dönsku meistaranna í gær og fékk sæti í byrjunarliði liðsins á Etihad leikvanginum í seinni leiknum gegn Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Íslendingurinn knái var spurður út í stöðuna eftir leik af blaðamönnum danskra fjölmiðla og hafði þar þetta að segja:
„Þetta hefur verið ótrúlega erfitt,“ sagði Orri aðspurður um síðustu vikur í viðtali við Bold. „Mér finnst ég ekki hafa átt þetta skilið.Ég hef bara reynt að leggja harðar að mér, standa mig vel á æfingum og fékk loksins sæti í byrjunarliðinu núna. Mér finnst það verðskuldað.“
FC Kaupmannahöfn tapaði einvíginu gegn Manchester City og er því úr leik í Meistaradeildinni þetta árið en Orri átti frábæra stoðsendingu í marki liðsins í gærkvöldi.
Jacob Neestrup, þjálfari FC Kaupmannahöfnar, segir stöðuna með Orra hafa verið allt eða ekkert stöðu. Það hafi reynst erfitt að líta fram hjá hæfileikum sóknarmannsins Andreas Cornelius og því hafi Orri þurft að sætta sig við lítinn spilatíma.
Hann er á því að Orri þurfi að leggja harðar að sér á æfingum.
„Það var frábært að sjá hvernig hann spilaði gegn Manchester City. Nú þarf hann að leggja harðar. Við sjáum hann gera það á æfingum og nú er bara að halda áfram.“