Afar rólegt hefur verið á Reykjanesskaga síðustu daga, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings á veðurstofu Íslands. Skjálftavirkni hefur verið með minnsta móti frá því að kvikuhlaupi á laugardag lauk. Um sex smáskjálftar hafa mælst við kvikuganginn frá miðnætti.
Vindasamt hefur verið á svæðinu sem getur haft áhrif á áreiðanleika mælinganna, og segir Bjarki að líklega hafi verið aðeins fleiri skjálftar en mælarnir nemi.
Öflugur skjálfti í Bárðarbungu.
Klukkan 9:41 í morgun mældist skjálfti af stærðinni 3,2 í Bárðarbungu og í kjölfarið fylgdu nokkrir eftirskjálftar. Að sögn Bjarka eru skjálftar af þessari stærðargráðu algengir í Bárðarbungu og því sé líklega ekkert hægt að lesa í þá að svo stöddu.