Lazio vann fyrri leikinn gegn Bayern, 1-0, í Rómarborg 14. febrúar síðastliðinn. Ciro Immobile skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 69. mínútu.
Bayern þarf því að snúa dæminu sér í vil í seinni leiknum á Allianz Arena í kvöld. Ef það gerist ekki eru yfirgnæfandi líkur á að tímabilið verði það fyrsta frá 2011-12 sem Bæjarar vinna ekki titil.
Bayern er tíu stigum á eftir Bayer Leverkusen á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar, tapaði fyrir C-deildarliði Saarbrucken í bikarkeppninni og fyrir Leipzig í ofurbikarnum.
Leon Goretzka skóf ekkert af því í nýlegu viðtali þegar hann lýsti tímabilinu hjá Bayern eins og hryllingsmynd sem tæki engan enda.
Búið er að tilkynna að Thomas Tuchel verði ekki áfram með Bayern á næsta tímabili en hluti leikmannahóps liðsins hefur snúist gegn honum. Meðal þeirra er Joshua Kimmich sem virðist með allt á hornum sér þessi dægrin.
Tölfræðin er kannski ekki með Bayern í liði í kvöld því þýsku meistararnir hafa aðeins unnið einn af sex leikjum í útsláttarkeppni undir stjórn Tuchels.
Hann hefur þó sýnt hversu fær stjóri hann er í Meistaradeildinni. Hann kom Paris Saint-Germain í úrslit 2020 og gerði svo Chelsea að Englandsmeisturum ári seinna. Tuchel á enn því möguleika á að koma þriðja liðinu í úrslit Meistaradeildarinnar.
Kollegi hans hjá Lazio, Maurizio Sarri, vann einnig Evróputitil sem stjóri Chelsea (Evrópudeildina 2019) og getur orðið fyrsti stjóri Lazio til að koma liðinu í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar síðan Sven-Göran Eriksson gerði það tímabilið 1999-00.
Leikur Bayern og Lazio hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Vodafone Sport. Á sama tíma hefst leikur Real Sociedad og PSG á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leiki kvöldsins hefst klukkan 19:25 á Stöð 2 Sport.