Grunnskóli Grindavíkur er nú starfræktur á fjórum stöðum í Reykjavík. Það er í Laugalækjarskóla, Hvassaleitisskóla, í húsnæði Knattspyrnusambands Íslands í Laugardalnum og í Ármúla.
„Þetta eru svona tvö hundruð og þrjátíu nemendur sem við höfum. Svo eru þá þrjú hundruð og þrjátíu nemendur hingað og þangað um landið í tæplega sjötíu skólum og tuttugu og fimm sveitarfélögum,“ segir Eysteinn Þór Kristinsson skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur.
Hann segir meira um að yngri börnin hafi flutt sig í aðra skóla en þau eldri.
„Áttundi, níundi, tíundi, þetta eru vel sóttir árgangar.“
Sjálf segja börnin það hafa mikla þýðingu að fá að vera áfram með vinunum í skóla. Sum þeirra sjá þó fram á breytingar næsta haust og því fyrirséð að fækkað geti frekar í skólanum þá.
„Ég er að fara að flytja til Keflavíkur. Það eru margir að fara þangað. Þannig ég verð með mörgum vinum mínum í skóla þar,“ segir Salvar Gauti Freyr Stefánsson.
Eysteinn segir óvíst hvort Grunnskóli Grindavíkur komi til með að starfa næsta vetur. Um eitt hundrað manns starfa hjá skólanum og því hefur framhaldið ekki aðeins áhrif á börnin.
„Starfsfólkið það er orðið órólegt. Ég get alveg viðurkennt það.“
Hann vonast til að framtíð skólans skýrist betur á næstu vikum og að þeim verði gert kleift að taka áfram á móti grindvískum börnum.
Páll Erlingsson kennari við Grunnskóla Grindavíkur segir mikilvægt að skólinn starfi áfram, að minnsta kosti næsta vetur þar sem margir Grindvíkingar séu ekki komnir með varanlegt húsnæði. Þá hafi það líka mikið að segja fyrir framtíð bæjarins.
„Ef við slátrum skólastarfi þá eiginlega getum við kvatt samfélagið.“
Búist er við enn öðru eldgosinu á Reykjanesi á næstu dögum. Börnin sjálf fylgjast hver vel með stöðu mála og sum þeirra byrja daginn á því að fara inn á fréttamiðlana á netinu til að kanna hvort að eldgos sé hafið. Þeirra á meðal er Katrín Eva Vattnes Hallgrímsdóttir.
„Ég er búin að lesa miklu meira fréttir núna eftir að þetta gerðist.“