Íslenski boltinn

Arnar krefst milljóna vegna árangurs sem Hall­grímur náði

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Grétarsson gerði frábæra hluti sem þjálfari KA en skildi við liðið til að taka við Val síðla árs 2022. Aðstoðarmaður hans, Hallgrímur Jónasson, tók þá við KA.
Arnar Grétarsson gerði frábæra hluti sem þjálfari KA en skildi við liðið til að taka við Val síðla árs 2022. Aðstoðarmaður hans, Hallgrímur Jónasson, tók þá við KA. vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnuþjálfarinn Arnar Grétarsson er farinn í hart og hefur stefnt sínum gömlu vinnuveitendum í KA. Málið snýst um greiðslur vegna árangurs KA í Evrópukeppni, sem Arnar lagði grunninn að.

Arnar kvaddi KA haustið 2022 til að taka við Val, eftir að hafa stýrt KA í rúm tvö ár. Samkvæmt upplýsingum Vísis var ákvæði í samningi Arnars við KA um að hann fengi ákveðið hlutfall af Evrópugreiðslum frá UEFA, sem félagið fékk svo árið eftir að Arnar fór, vegna árangurs í Sambandsdeild Evrópu.

Heildarupphæðin sem KA fékk hækkaði úr 150.000 evrum (jafnvirði 22 milljóna króna í dag) í 550.000 (82 milljónir króna) við það að liðið, þá undir stjórn Hallgríms Jónassonar sem áður var aðstoðarmaður Arnars, komst í gegnum 1. og 2. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar síðasta sumar.

Eftir því sem Vísir kemst næst telja KA-menn eðlilegt að Arnar fái greiddan bónus í samræmi við þann árangur að hafa komið liðinu í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar. Arnar hefur hins vegar enn enga greiðslu fengið og krafa hans er að upphæðin sé í samræmi við að KA skuli hafa náð í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar.

Ekki er ljóst um hve háar upphæðir ágreiningurinn snýst en augljóst að um milljónir er að ræða, og jafnvel tugi milljóna.

Tilraun til sátta á föstudag

Arnar átti risastóran þátt í að koma KA í Evrópusæti haustið 2022 en hann skildi við liðið áður en það hafði endanlega tryggt sér Evrópusæti. Liðið var þó í afar góðum málum, með 43 stig í 3. sæti og með níu stiga forskot á næsta lið, Val, þegar aðeins umferðirnar fimm í nýju úrslitakeppninni voru eftir. Eftir að ráðningarsamningur Arnars var runninn út var hann svo kynntur sem nýr þjálfari Vals, sem hann stýrir í dag.

Málið snýst því um það hve mikinn rétt Arnar hefur á bónus fyrir Evrópuárangurinn eftir að hann fór. Þrátt fyrir tilraunir hefur aðilum málsins ekki tekist að ná samkomulagi og nú er komið að sáttatilraun hjá dómara en stefna Arnars verður tekin fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra á föstudaginn.

Nái menn ekki saman þar má búast við því að aðalmeðferð í málinu verði í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×