Eliza greinir frá þessu í færslu á síðu sína á Instagram þar sem hún segir að forsetahjónin hafi ítrekað stuðning sinn við ákall ríkisstjórnarinnar fyrir fyrirvaralausu vopnahlé.
Í tilkynningu á vefsíðu forsetaembættisins kemur fram að til fundarins hafi meðal annars komið Asil Almassri. 17 ára stúlka sem hlaut íslenskan ríkisborgararétt í árslok 2023 eftir að hún missti fjölskyldu sína og annan fótlegginn í árás Ísraelshers á Gasa.

Emad Albardawil var einnig á fundinum og sagði forsetahjónum sögu sína. Hann endurheimti á dögunum eiginkonu sína og börn frá Gasa fyrir tilstilli íslenskra sjálfboðaliða við landamæri Palestínu að Egyptalandi. Ikram Zubaydi, Qussay Odeh og Suliman Almassri voru líka á fundinum og fyrir hópnum fór Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri íslenska nýsköpunarfyrirtækisins GeoSilica.
„Forsetahjón vottuðu palestínska samfélaginu samúð vegna hins mikla mannfalls sem orðið hefur á Gasa og tóku undir ákall íslenskra stjórnvalda og annarra um tafarlaust vopnahlé þar. Einnig var rætt um stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi og leiðir til að gera þeim kleift að njóta sín til fulls, sjálfum sér og öðrum til heilla.“