Um er að ræða seinni umferð undankeppninnar en auk Íslands og Portúgal eru Finnland og Kósóvó í þessum riðli. Sigurvegari riðilsins fer áfram í lokakeppni Evrópumóts U17-ára landsliða en mótið fer fram í Svíþjóð í maí.
Eina mark leiksins kom í fyrri hálfleik og voru það Portúgalir sem gerðu það. Markið kom á 39. mínútu eftir að fyrirgjöf frá hægri rataði beint fyrir framan fætur framherjans Melanie Florentinu sem skoraði auðveldlega.
Íslenska liðinu tókst ekki að jafna metin í síðari hálfleiknum og verða því að sætta sig við tap í fyrsta leik undankeppninnar. Ísland leikur næst gegn Finnum á laugardag.