Vegagerðin greinir frá þessu á vef sínum en vonast er til að þessi nýi vegkafli verði tilbúinn á næstu dögum. Vegurinn verður lagður yfir nýtt hraun sem gerir það að verkum að ökumenn þurfa að viðhafa varúð þegar farið er um veginn. Kallað er eftir því að forðast verði að stöðva ökutæki mikið á nýja kaflanum og hefur sérstakur hitaskynjari verið settur við veginn til að fylgjast með hitanum sem mælist nú á bilinu 50 til 80 °C. Hitinn er þó sagður vera lægri á yfirborði vegarins.

Að sögn Vegagerðarinnar stendur nú yfir hönnun á öðrum vegarkafla sem er ætlað að tengja Grindavíkurveg aftur alla leið inn til Grindavíkur. Þarf að taka mið af breyttu landslagi vegna hrauns sem rann í janúar og varnargarða sem reistir hafa verið á svæðinu.
Einnig hefur Vegagerðin látið brúa Austurveg í Grindavík til bráðabirgða en sprunga liggur í gegnum veginn. Hefur vegurinn verið brúaður með tveimur samsíða gámafletum. Jafnframt kemur fram í tilkynningu Vegagerðarinnar að áfram sé unnið að því að kortleggja sprungur og hugsanleg holrými við Grindavík. Til þessa verks sé notaður sérstakur jarðsjárdróni á vegum stofnunarinnar.
