Í gær sendi lögreglan á Norðurlandi eystra frá sér tilkynningu þar sem varað var við efnaleka við Furuvelli og voru íbúar á svæðinu beðnir um að halda sig innandyra og loka gluggum.
Lekinn átti sér stað hjá Endurvinnslunni sem staðsett er við Furuvelli en Aðalsteinn Júlíusson, lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri, segir í samtali við fréttastofu að efnið sé í rannsókn og niðurstöðum að vænta í næstu viku.
„Við sofum alveg rólegir yfir þessu þannig, þetta gekk hratt yfir og við höldum að þetta hafi verið eitthvað algjört óhapp. Ekkert saknæmt á bak við þetta,“ segir Aðalsteinn.
Gufur fór illa í starfsmenn
Nokkrir starfsmenn Endurvinnslunnar kvörtuðu yfir sviða í augum og öndunarfærum eftir lekann en Aðalsteinn hefur ekki heyrt frá neinum þeirra hvort óþægindin hafi haldið áfram.
„Um leið og þetta binst lofti eða vatni myndast einhverjar gufur sem fara illa í fólk,“ segir Aðalsteinn.
Slökkviliðinu gekk vel að hreinsa efnið og var húsnæðið fljótlega talið öruggt.
„Þetta voru meiri öryggisráðstafanir frekar en hitt á meðan það var verið að tryggja að efnið færi ekki út í holræsakerfið og eins hreinsa húsnæðið bara,“ segir Aðalsteinn.