Jakob Eggertsson, Jungle:

„Akkúrat þessa dagana er ég límdur við Ted Lasso og er kominn á þriðju seríu þar. Sjúklega wholesome, feel good þættir sem þurfa ekkert endilega alla athyglina hjá manni.
The Office hefur líka lengi verið í miklu uppáhaldi enda fullkomnir sem eitthvað til að horfa á á autopilot fyrir svefninn.
Ég er síðan búinn að horfa á Mike Flanagan hryllingsseríurnar Haunting of Hill house, Haunting of Bly Manor og Midnight Mass allavega svona þrisvar sinnum. Er venjulega ekki mikið í hryllingsefninu en þessir þættir eru algjör meistaraverk að mínu mati.“
Oddur Atlason, Petersen svítunni:

„Ég fylgist spenntur þessa dagana með Feud: Capote vs. the Swans sem fjalla um Truman Capote og vinkonur hans, yfirstéttarkonur í New York.
Er mjög hrifinn af svona sögulegum mini series og mini series yfirleitt, kláraði Griselda á tveimur kvöldum og hafði gaman að.
Ég reyni annars að horfa á sem flestar Óskarsmyndir á þessum árstíma fyrir verðlaunaafhendinguna og svo í laumi fylgist ég grannt með húsmæðrunum í Beverly Hills.“
Sara/Scorpio Venus, Röntgen:

„Ég er krónískur enduráhorfandi á efni sem ég veit að mér finnst fyndið og skemmtilegt og er mjög oft með það hálftgert í bakgrunninum meðan ég vinn heima. Var um daginn að klára Scrubs aftur (fyrir utan níundu seríu) og tók svo enn einu sinni upp Simpsons beint eftir það.
Ég horfði í fyrsta skipti á alla fyrstu seríuna af The Terror um daginn, það er virkilega gott sjónvarpsefni en klárlega ekki léttmeti.
Er líka að vinna mér leið í gegnum The Boys og Umbrella Academy, en það er saman-áhorf með makanum svo það er erfitt að finna tíma í það.
Eitthvað sem ég þarf að grípa í aftur er Brand New Cherry Flavour, snilldar þættir fyrir fólk sem fílar horror og Cronenberg.
Ef myndir teljast með þá fór ég á Poor Things um daginn, hún er mjööög góð.“
Freyja Þórisdóttir, Reykjavik Cocktails & Forréttabarnum:

„Sko ég er ekki nógu dugleg við að klára heilu þáttaraðirnar en það væri þá helst Survivor sem ég dett alltaf aftur inn í. Snilldar þættir og ekkert mál að taka langar pásur frá því að horfa.
Annars erum við kærasti minn komin áleiðis með Peaky Blinders, vissi ekki alveg við hverju ég var að búast en þeir eru mjög vel gerðir og gott að taka einn og einn fyrir svefninn.
Svo verður að viðurkennast að ég hef gerst sek um eina og eina þáttaröð af Love Island, þeir eru ávanabindandi og ég vara fólk við því að byrja að horfa sem vill ekki festast í sófanum næstu misseri en það eru einhvern veginn til endalaust margir þættir af þessu.“
Sara Rós Lin Stefánsdóttir, Sushi Social:

„Upp á síðkastið hef ég verið að horfa á Gossip Girl en það er svo auðvelt að detta inn í ýkt drama hjá ríkum og snobbuðum einstaklingum. Svo hef ég einnig verið að horfa á Gilmore girls sem vegur svolítið upp á móti dramanu úr Gossip Girl.
Þetta eru seríur sem ég get kveikt á og farið að gera eitthvað annað sem er mikilvægt þegar það kemur að efni til að horfa á, þar sem ég er yfirleitt að gera eitthvað tvennt í einu.“