Þetta kom fram í sérstökum aukafréttatíma Stöðvar 2 í hádeginu. Eins og fram hefur komið hefur hraun farið yfir Grindavíkurveg og Norðurljósaveg að Bláa lóninu.
„Við fengum auðvitað upplýsingar í nótt og tilkynningu um að rýma. Við gerðum það með yfirveguðum hætti og það gekk hratt og örugglega fyrir sig,“ segir Helga. Hún segir að svo hafi forsvarsmenn lónsins fylgst með atburðarásinni eins og aðrir.
Ljóst sé að enn sé vegur í gegnum Hafnir sem heiti Nesvegur opinn að lóninu. Það þýði að ekki séu allir vegir lokaðir að lóninu.
„Við horfum bara á stöðuna þannig að við erum komin inn í þetta jarðhræringatímabil eins og talað hefur verið um. Við aðlögum okkar rekstur að því og það er mikilvægt að geta rýmt hratt og örugglega og svo að sama skapi opnað aftur þegar aðstæður leyfa. Þetta er nýr veruleiki og við ætlum bara að vinna með hann.“
Helga segir að hraunið hafi ekki haft áhrif á kerfi Bláa lónsins. Það sé innan varnargarða, við orkuverið í Svartsengi. Hún vænti þess ekki að það verði fyrir áhrifum en fylgst sé vel með því. Öryggi gesta og starfsmanna sé fyrst og fremst í fyrirrúmi. Hún segir fyrirtækið ekki finna mikið fyrir afbókunum.
„Við höfum frekar horft til þess að gestir okkar séu að bíða eftir þeirra degi og sjá hvort það sé búið að opna eða ekki. En það hefur hægt á bókunarinnflæði, ferðamenn sjá hvort þeir komi til Íslands eða hvort þeir bíði með það.“