Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að sveitirnar vinni nú að því að tryggja vettvang eins vel og hægt sé upp á að hægt sé að fara þangað niður með sem öruggasta móti.
Ekki sé hægt að staðfesta að gerð verði önnur atlaga í kvöld en unnið sé með það að markmiði.
Á myndum af vettvangi má sjá viðbragðsaðila vinna að því að koma viðarpöllum og neti fyrir á svæðinu þar sem leitin fer fram. Jón segist ekki getað svarað hver tilgangur þess sé en ítrekar að unnið sé að því að tryggja vettvang fyrir björgunarmenn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur verið unnið að því að rýmka op sprungunnar til þess að unnt verði að láta körfu síga örugglega ofan í sprunguna. Mikið hafi hrunið úr köntum sprungunnar þegar karfan var fyrst látin síga niður.
Margrét Björk Jónsdóttir, fréttamaður okkar, er á vettvangi og mun ræða við Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóra á Suðurnesjum í kvöldfréttum klukkan hálf sjö.
Myndbandið hér að neðan sýnir aðstæður á vettvangi í dag.