Fótbolti

Segist sjá eftir högginu en gæti endaði í þrettán ára fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Faruk Koca sést hér slá Halil Umut Meler dómara í desember síðastliðnum.
Faruk Koca sést hér slá Halil Umut Meler dómara í desember síðastliðnum. Getty/Emin Sansar

Fyrrum forseti tyrkneska félagsins Ankaragücü segist sjá eftir því að hafa slegið niður dómara eftir leik liðsins í desember síðastliðnum en hann hafnar því aftur á móti að hafa hótað dómaranum lífláti.

Faruk Koca, sagði af sér sem forseti Ankaragücü, eftir atvikið en tyrkneska knattspyrnusambandið frestaði öllum fótboltaleikjum í eina viku eftir að forsetinn strunsaði niður á völl og sló niður dómara leiksins.

Dómarinn kærði Koca fyrir líkamsárás en sakar hann einnig um að hafa hótað sér lífláti. Hámarksrefsing fyrir slík brot er þrettán ára fangelsi.

Dómarinn heitir Halil Umut Meler og er FIFA-dómari. Hann er fremsti dómari Tyrklands. Það var ekki nóg með að hann var sleginn niður í grasið af forsetanum heldur spörkuðu tveir aðrir í hann þar sem hann lá. Meler var fluttur á sjúkrahús.

Koca fékk að launum ævibann frá fótbolta og Ankaragücü fékk stóra sekt. Félagið þurfti líka að spila fimm heimaleiki fyrir luktum dyrum.

Nú er hins vegar komið að sjálfu dómsmálinu. Dómarinn og aðstoðardómarar hans sögðu í vitnastúkunni að Koca hafi hótað Meler dómara lífláti. Hann þvertekur fyrir það. Á fyrsta degi réttarhaldanna var þeim síðan frestað fram í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×