Golden Lion FC er frá franska handanhafshéraðinu Martinique. Félagið hefur orðið úrvalsdeildarmeistari þar fimm af síðustu níu tímabilum, þar af síðustu þrjú tímabil í röð. En þrátt fyrir yfirburði heima fyrir áttu þeir ekki roð í Lille.
Staðan var 7-0 fyrir Lille í hálfleik. Hákon Arnar var eini sóknarmaður liðsins sem komst ekki á blað í fyrri hálfleik en breytti því fljótlega í seinni hálfleik.
Hákon lagði áttunda markið upp á Tiago Santos, fór svo á vítapunktinn og skoraði níunda markið sjálfur. Aftur lagði hann upp þegar Jonathan David skoraði tíunda markið og Hákon setti svo sjálfur ellefta mark Lille á 78. mínútu.
Fljótlega eftir það fór Hákon af velli fyrir Amine Messoussa sem skoraði tólfta og síðasta mark leiksins. Með þessum sigri heldur Lille áfram í 32-liða úrslit franska bikarsins.