„Þetta var gert rétt áðan. Það eru viðmið sem við erum með. Þetta er pínu óvanalegt. Það komu nokkrir skjálftar, sex eða sjö, yfir einn á klukkutíma. Þá erum við með það viðbragð að setja á gulan fluglitakóða. Það þýðir ekkert að það sé stopp bara að menn eru betur á varðbergi,“ segir Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Hann segir að það megi því fljúga yfir en að menn hafi það í huga að það geti eitthvað breyst á stuttum tíma. Þrátt fyrir að skjálftarnir séu ekki stórir þá sé þetta hefðbundið viðbragð, að hækka fluglitakóðann.
Grímsvötn eru ein virkasta eldstöð landsins en þar hefur ekki gosið síðan 2011. Grímsvötn eru staðsett við vestanverða hásléttu Vatnajökuls.
