Þar kemur fram að nýtt hættumatskort verði í gildi næstu tvo daga, til klukkan 18:00 þann 29. desember. Samkvæmt kortinu er enn töluverð hætta á jarðskjálftum, sprungum og sprunguhreyfingum.
Ítrekað er í tilkynningu lögreglu að breytingar á hættumatskorti geta orðið með skömmum fyrirvara. Sérstaklega er ítrekað að eldgos geti hafist í nágrenni bæjarins með stuttum fyrirvara.
Þá er sérstaklega ítrekað að erfitt geti reynst að tryggja öryggi þeirra sem dvelja eða gista í bænum. Þeir sem fari inn á merkt hættusvæði geri það á eigin ábyrgð.
Þá er viðbragð björgunarsveita áfram skert. Engin björgunarsveit verður í Grindavík. Íbúar sem þurfi aðstoð fái hana með því að hringja í 112.
Muni gos hefjast í eða við Grindavík verða send út SMS skilaboð á farsíma inni á svæðinu. Lögregla sinnir eftirliti í og við Grindavík eins og verið hefur allan sólarhringinn. Mögulegar flóttaleiðir eru um Nesveg, Suðurstrandarveg og Grindavíkurveg.