Meira en 120 þúsund hafa skrifað undir ákall um að haldið verði í upphaflega hönnun glugganna. Mótmælendur hafa líkt áformunum við skemmdarverk og halda því fram að skiptin muni gerbreyta byggingunni á verri veg.
Uppbygging kirkjunnar stendur enn yfir eftir að hún brann nánast til kaldra kola í apríl 2019.
Macron heimsótti dómkirkjuna í desembermánuði og tilkynnti þar að gluggunum í sex af sjö hliðarkapellum kirkjunnar, sem rekja má aftur til þrettándu aldar, yrði skipt út. Gluggarnir sem setja á í eru líka steindir en með nýrri hönnun og var efnt til samkeppni til að velja útlitið.
Samkvæmt frétt Guardian átti erkibiskup Parísar, Laurent Ulrich, hugmyndina að gluggaskiptunum. Ulrich er sagður hafa borið hugmyndina undir forsetann með formlegu bréfi og Macron litist vel á hugmyndina.
Gluggarnir, sem skipta á út, voru hannaðir af arkitektinum Eugéne Viollet-le-Duc en hann teiknaði jafnframt turnspíruna, sem bætt var við mannvirkið um miðja 19. öld. Gluggarnir komust heilir í gegn um eldsvoðann sem eyðilagði hálfa kirkjuna og er ætlunin að stilla þeim upp til sýnis í nýju Notre Dame safni.