Neymar sleit krossband í hné þegar Brasilía tapaði fyrir Úrúgvæ í undankeppni HM í október. Hann fór svo í aðgerð tveimur vikum seinna.
Neymar verður frá keppni næstu mánuðina og missir af Suður-Ameríkukeppninni samkvæmt lækni brasilíska landsliðsins, Rodrigo Lasnar.
„Þetta er of snemmt. Það er enginn tilgangur að stytta sér leið og taka óþarfa áhættu. Vonir okkar standa til að hann geti snúið aftur þegar Evróputímabilið 2024 hefst í ágúst,“ sagði Lasnar.
„Við þurfum að sýna þolinmæði. Það er of snemmt að tala um endurkomu innan níu mánaða. Það er mikilvægt að virða tímann sem það tekur líkamann að jafna sig. Ef við gerum það og eftir langa endurhæfingu vonumst við til að hann geti spilað aftur meðal þeirra bestu.“
Neymar er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins með 79 mörk í 129 leikjum. Hann gekk í raðir Al Hilal í Sádi-Arabíu frá Paris Saint-Germain fyrir tæplega hundrað milljónir punda í ágúst.
Brasilía verður í riðli með Kólumbíu, Paragvæ og sigurvegaranum í umspilsviðureign Hondúras og Kosta Ríka í Suður-Ameríkukeppninni.