„Krafturinn fyrstu klukkutímana var margfalt meiri en í gosunum þremur undanfarin ár á Reykjanesskaga. Framleiðnin í gosinu gróflega metin á bilinu 100-200 m3/s og gæti vel hafa verið meiri.“
Gossprungan hafi stækkað hratt fyrstu þrjá tímana eftir að gosið byrjaði og áberandi mikil skjálftahrina verið á svæðinu á meðan jörðin var að rifna. Verulega hafi dregið úr hrinunni milli klukkan 01 og 02 í nótt og samhliða því hafi sprungan náð sinni hámarkslengd. Þegar mest lét hafi gosið samfellt á fjögurra kílómetra langri sprungu og sjónarspilið ægilegt.
Gosvirkni virðist nú einangruð niður í þrjá eða fjóra bletti og strókarnir allir mun minni en það sem sást í gærkvöldi.
Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá upphaf gossins og þá gríðarlegu framleiðni sem var í því fyrst um sinn.