Ólafur vakti talsverða athygli í dag, í hádegisfréttum Bylgunnar og á Vísi, þegar hann sagðist vilja gista í Grindavík. Hann væri orðin þreyttur á að Grindvíkingar fengju ekki að gista í heimabæ sínum nú þegar jarðskjálftamælar hreyfðust varla og líkur á eldgosi væru sáralitlar sem engar.
Margir hringdu og þökkuðu honum fyrir
Ólafi var hótað handtöku þegar hann sagðist vilja gista. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Úlfar Lúðvíksson, sagði við sama tækifæri að hann teldi líkur á að Grindvíkingar gætu haldið jól í heimabæ sínum. Það verður ekki.
En, hvar ertu núna?
„Ég er í Ölfusborgum. Við fórum þangað í dag. Við hættum við. Við vorum á heimleið, það er engin launung á því. Við héldum að þetta væri búið. Ég og Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur,“ segir Ólafur og hlær við, þó honum sé ekki hlátur í huga.
„Stundum verður maður bara að kyngja svona löguðu. Þeir voru margir sem hringdu í mig í dag og í kvöld og þökkuðu mér fyrir að vilja berja þetta í gegn. En það hefur snarfækkað í þeim hópi núna. En svona er þetta bara,“ segir Ólafur.
Vorkennir Haraldi eldfjallafræðingi
Hann segir sig og sína á ágætum stað núna. Fjölskyldan fylgist með úr fjarlægð núna. „Þó þetta sé þriggja kílómetra rifa núna þá vonar maður að þetta verði eins og hin gosin. Að þetta skilji bara eftir sig smá bungu. En verst er ef þetta verður hangandi yfir okkur næstu þrjú hundruð árin. Þá missir maður að þessu að mestu.“
Ólafur bendir á að Hófsnesið, þar sem vitinn í Grindavík stendur, hafi orðið til í sambærilegu gosi. Ef hraunið fer að renna þá leið sé Grindavík búið að vera.
„Já. Ég vorkenni Haraldi núna, meira en mér. En þetta er svakalegt,“ segir Ólafur. Hann þykist vita að ekki séu neinir í Grindavík núna. Bærinn sé tómur.