Gestirnir í Melsungen höfðu yfirhöndina frá upphafi leiks og náðu mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik í stöðunni 8-13. Liðið fór þó aðeins með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn, staðan 12-14.
Melsungen var hins vegar ekki lengi að gera út um leikinn í síðari hálfleik og náði mest átta marka forskoti í stöðunni 17-25. Eftir það var eftirleikurinn auðveldur og niðurstaðan varð sex marka sigur Melsungen, 21-27.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen í kvöld, en Elvar Örn Jónsson var fjarri góðu gamni. Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk fyrir heimamenn í Leipzig, en Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað.