Ályktunin gerir kröfu um tafarlaust vopnahlé á Gasa og er lögð fram af tuttugu arabaríkjum. Aðeins eru nokkrir dagar síðan Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og komu þannig í veg fyrir að svipuð ályktun næði fram að ganga þar.
Engin þjóð hefur hinsvegar neitunarvald á Allsherjarþinginu en ólíkt öryggisráðinu eru ályktanir þess ekki bindandi. Þær hafa þó því hlutverki að gegna að þar kemur vilji allra þjóða heimsins skýrt fram í málum. öryggisráðinu hefur sex sinnum mistekist að koma í gegn ályktun um vopnahlé frá því átökin hófust.
Allsherjarþingið samþykkti þó í lok október ályktun Jórdaníu um tafarlaust vopnahlé á svæðinu. 120 ríki greiddu atkvæði með þeirri ályktun og aðeins fjórtán voru á móti. Ísland var hinsvegar þá í hópi 45 ríkja sem sátu hjá.
Íbúum Khan Younis sagt að flýja
Yoav Gallant varnarmálaráðherra Ísraela sagði í morgun að herinn hefði nú umkringt Jabaliya flóttamannabúðirnar og Shejaiya í norðurhluta Gasa sem Gallant segir vera vígi Hamas samtakanna. Hann fullyrðir að hundruð meðlima Hamas hafi síðustu daga gefist upp eða verið teknir höndum og segir ljóst að hreyfingin sé við það að leysast upp í norðurhluta Gasa.
Þá segjast Ísraelar ætla að opna fyrir neyðaraðstoð inn á Gasa í gegnum Kerem Shalom landamærastöðina síðar í dag.
Í morgun hafa loftárásir þeirra á íbúðabyggðina í Gasa þó verið afar harðar og hafa íbúar í Khan Younis verið hvattir til að flýja í átt að Rafah.
Kallað eftir viðskiptaþvingunum á hendur Ísraelum Segir nánast ómögulegt að koma hjálpargögnun inn á Gasa Bandaríkin einangruð og alþjóðasamfélagið verði að grípa inn í