Norski landsliðsmaðurinn Emil Breivik varð fyrir því óláni að fótbrotna eftir samstuð við Julian Faye Lund, markvörð Bodö/Glimt.
Atvikið gerðist í upphafi seinni hálfleik og varð löng töf á leiknum á meðan hugað var af Breivik.
Breivik var borinn af velli á börum og fluttur á sjúkrahús. Lars Håvard Sæbø, læknir í Molde, staðfesti fótbrotið við norska ríkissjónvarpið.
Staðan var þá 0-0 i leiknum en Fredrik Gulbrandsen skoraði sigurmark Molde á 89. mínútu leiksins.
Hinn 23 ára gamli Breivik var búinn að eiga flott tímabil og var valinn í norska landsliðið í fyrsta sinn í september. Hann spilar sem varnartengiliður eða miðvörður en var inn á miðri miðjunni í þessum bikarúrslitaleik.
Þetta var í sjötta sinn sem Molde varð bikarmeistari en liðið varð líka bikarmeistari 1994, 2005, 2013, 2014 og 2021.