Grosso var ráðinn stjóri Lyon um miðjan september og stýrði liðinu í aðeins sjö leikjum. Hann skilur við Lyon í fallsæti, fimm stigum frá öruggu sæti.
Grosso varð fyrir alvarlegum meiðslum þegar stuðningsmenn Marseille réðust á liðsrútu Lyon í október. Hann fékk glerbrot í andlitið þegar ein rúðan á rútunni brotnaði framan í hann.
Saumuð voru þrettán spor í andlit Grossos sem var hreinlega heppinn að missa ekki annað augað.
Grosso stýrði Lyon í síðasta sinn þegar liðið tapaði fyrir Lille, 2-0, á sunnudaginn. Pierre Sage tekur tímabundið við Lyon-liðinu.
Grosso lék með Lyon á árunum 2007-09. Hann er hvað þekktastur fyrir þátt sinn í að Ítalía varð heimsmeistari 2006.