Þar kemur fram að jarðskjálftavirkni hafi áfram farið hægt minnkandi síðustu tvo sólarhringa. Í gær mældust um 340 skjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa um 150 skjálftar mælst. Flestir skjálftanna eru smáskjálftar undir 1,0 að stærð á svæðinu austan við Sýlingarfell.
Þenslan yfirgnæfir merkin
Þá hefur dregið úr hraða landriss við Svartsengi síðustu daga. Hraði þess er þó áfram þó nokkur, eða allt að einn sentímetri á sólarhring.
Aflögunargögn og niðurstöður líkanreikninga benda til þess að megnið af aflöguninni komi til vegna innflæðis undir Svartsengi frekar en innflæðis í kvikuganginn. Segir í tilkynningunni að með öðrum orðum yfirgnæfi þenslan við Svartsengi nú merkin við kvikuganginn.
Hægt dregur þó úr öllum færslum. Innflæðið í kvikuganginn einskorðast við svæðið austan við Sýlingarfell. Þótt áfram dragi úr aflögun og skjálftavirkni eru ennþá taldar líkur á eldgosi og ef til þess kemur er líklegasti staðurinn austan Sýlingarfells.