Íslendingaliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og náði strax sex marka forystu í stöðunni 7-1. Eftir það hægðist þó á markaskorun Melsungen og heimamenn í Eisenach löguðu stöðuna lítilega fyrir hálfleik, en staðan var 13-9 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Gestirnir í MT Melsungen héldu heimamönnum svo í hæfilegri fjarlægð allan seinni hálfleikinn, en munurinn á liðunum varð aldrei minni en tvö mörk. Íslendingaliðið fagnaði því að lokum þriggja marka sigri, 27-24.
Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen í kvöld og Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt.
Með sigrinum tyllti Melsungen sér á topp þýsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig eftir 14 leiki, einu stigi meira en Magdeburg og Füchse Berlin sem sitja í öðru og þriðja sæti, en hafa þó leikið tveimur leikjum minna.