Argentínumenn sigruðu Brassa, 1-0, í undankeppni HM 2026 í nótt. Nicolás Otamendi skoraði eina mark leiksins. Átök lögreglumanna og stuðningsmanna settu ljótan svip á leikinn.
Eftir leikinn talaði Scaloni nokkuð óvænt um að hann gæti hætt með argentínska liðið sem hann hefur stýrt frá 2018.
„Argentína þarf þjálfara sem er fullur af orku og í lagi. Ég þarf að staldra við og ég hef um margt að hugsa,“ sagði Scaloni.
„Þetta er ekki kveðjustund eða eitthvað svoleiðis en ég þarf að hugsa því ráin er hátt uppi og það er erfitt að halda áfram og halda áfram að vinna. Þessir strákar gera þetta erfitt svo ég þarf að hugsa mig um. Ég mun tala við forseta knattspyrnusambandsins og strákana á eftir.“
Undir stjórn Scalonis varð Argentína Suður-Ameríkumeistari 2021 og heimsmeistari 2022. Scaloni hefur stýrt argentínska liðinu í 67 leikjum; 46 hafa unnist, fimmtán endað með jafntefli en aðeins sex tapast.