Kvikugangurinn víkki og dýpki en minnkandi virkni bendi til þess að kvikan sé komin ofarlega í jarðskorpuna. Það þurfi ekki mikil átök til að kvikan brjóti sér leið upp á yfirborðið. Líklegasti staðurinn fyrir eldgos sé á svæðinu vestan við Hagafell. Þetta sagði Kristín á upplýsingafundi Almannavarna, sem hófst klukkan 13.
Þá sagði hún að hraun geti runnið í átt að Svartsengi og Grindavík eða í norður og austur. Það fari eftir því hvar hraunið kemur upp. Loks sagði hún að virkt tímabil með ítrekuðum eldgosum geti varið í áratugi á Reykjanesskaganum.